Wednesday, September 14, 2005

Allt búið

Bloggið mitt varð til 6. desember 2002 og rann sitt skeið í gær. Upphaflega gerði ég þetta fyrir mig og mína, en hei þetta er internetið og lesendafjöldinn óx töluvert umfram það. Einstaka sinnum hefur það komið fyrir að einkahúmor og slíkt hefur misskilist, og náð flugi umfram það sem var meint. Þar að auki er ég kannski að veita fullmikla innsýn í ekki bara mitt líf heldur þeirra sem eru í kringum mig. Það er mjög vandmeðfarið.

Það er ekki gaman að halda úti svona síðu þegar maður þarf stöðugt að ritskoða hvert skrifað orð. Ég er ekki karakter til að skrifa um það þegar ég fór í bankann þá hafi þjónustufulltrúinn verið sérlega almennilegur. Yfirborðsleg og geld frásögn, eða skrif undir rós er ekki minn stíll. Frekar sleppi ég þessu alfarið en að þróast út í slíka passasemi.

Það var heldur aldrei tilgangurinn að bjóða fólki upp á leiðinda skoðanaskipti um það sem er að gerast í mínu lífi eða þeirra sem eru í kringum mig, en bloggið var vissulega farið að opna fyrir þann möguleika.

Að ofangreindu ætla ég því að fylgja fordæmi DOddssonar og hætta á toppnum! ;-D Ég hafði ofboðslega gaman af þessu og fannst ég meira að segja ná að þróa með mér smá frásagnarstíl. Ég fann að flestir kunnu að meta það sem ég var að gera, og iðulega fékk ég jákvæð viðbrögð. Ég er því alls ekki hættur að skrifa. Ég hugsa að ég haldi skrifunum bara fyrir sjálfan mig hér eftirleiðis.

Takk fyrir mig. Lof end Pís! :-)